Jordan Pickford, markverði Everton, verður ekki refsað fyrir tæklinguna á Virgil van Dijk, varnarmanni Liverpool, í jafntefli liðanna, 2-2, í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.
Enski landsliðsmarkvörðurinn tæklaði Van Dijk eftir að búið var að dæma rangstöðu. Hollendingurinn þurfti að fara meiddur af velli og nú er ljóst að hann þarf að fara í aðgerð og þátttöku hans á tímabilinu væntanlega lokið.
Enska knattspyrnusambandið hefur staðfest að Pickford sleppi við refsingu þar sem dómarar leiksins hafi séð atvikið. Michael Oliver dæmdi leikinn á Goodison Park og David Coote var myndbandsdómari.
Liverpool-menn voru ekki sáttir með dómgæsluna í leiknum á laugardaginn. Í uppbótartíma var mark dæmt af Englandsmeisturunum þar sem Sadio Mané var nokkra millimetra fyrir innan vörn Everton.
Liverpool er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tíu stig, þremur stigum á eftir Everton sem er á toppnum.