Fótbolti

Tveir sautján ára Barca strákar skrifuðu söguna í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ansu Fati fagnar marki sínu með Barcelona í gær.
Ansu Fati fagnar marki sínu með Barcelona í gær. Getty/Alex Caparros

Ungir markaskorarar Barcelona í Meistaradeildinni gerðu gærkvöldið að sögulegu kvöldi í Meistaradeildinni.

Ansu Fati og Pedri skoruðu nefnilega báðir í 5-1 sigri Barcelona á ungverska félaginu Ferencváros í fyrsta leik Katalóníuliðsins í riðlakeppninni í vetur.

Ansu Fati var í byrjunarliðinu, skoraði annað mark Barcelona og átti einnig stoðsendingu á Philippe Coutinho í þriðja markinu.

Pedri kom síðan inn á fyrir Ansu Fati á 62. mínútu leiksins og skoraði fjórða mark Börsunga tuttugu mínútum síðar.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu Meistaradeildarinnar þar sem tveir sautján ára strákar skora í sama leiknum í keppninni.

Ansu Fati og Pedri eru báðir fæddir í lok ársins 2002 og hvorugur þeirra hefur því haldið upp á átján ára afmælið sitt. Ansu Fati verður átján ára 31. október næstkomandi en Pedri þarf að bíða til 25. nóvember.

Ansu Fati er búinn að stimpla sig inn hjá Barcelona og skoraði sitt fyrsta Meistaradeildarmark í fyrra. Hann varð yngsti markaskorari Meistaradeildarinnar frá upphafi þegar hann skoraði á móti Internazionale í desember í fyrra þegar hann var aðeins sautján ára og fjörutíu daga.

Barcelona gekk frá kaupunum á Pedri frá Las Palmas í september 2019 en hann kom ekki til félagsins fyrr en í sumar.

Pedri lék sinn fyrsta leik með aðalliði Barcelona 27. september og leikurinn í gær var hans fyrsti leikur á ferlinum í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×