Sautján manns sem komu frá Póllandi greindust með kórónuveiruna í landamæraskimun í gær. Fjórir þeirra eru með virk smit en mótefnamælingar er beðið í þrettán tilfellum.
Þetta er þriðji stóri hópurinn sem greinist með veiruna á landamærum síðustu daga eftir að hafa verið á ferðalagi um Pólland.
Í síðustu viku greindist átján manna hópur með veiruna og voru þau öll með virkt smit. Síðastliðinn sunnudag greindust síðan um tuttugu manns á landamærunum sem einnig voru að koma frá Póllandi.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í dag að undanfarið hefðu óvenjulega margir farþegar greinst á landamærunum. Aðallega væru þetta einstaklingar sem væru að koma frá Póllandi og fólkið væri að greinast með veiruna annað hvort í fyrri eða seinni skimun.
Sagði Þórólfur þetta vafalaust endurspegla mikla fjölgun smitaðra í Póllandi auk þess sem þetta gæti bent til þess að á næstunni myndi mögulega sjást hærra hlutfall smitaðra á landamærunum en verið hefur. Faraldurinn væri enda á uppleið í Evrópu.
Þórólfur var spurður að því hvort eitthvað eigi að bregðast við þessari fjölgun smitaðra á landamærunum. Hann benti á núverandi aðgerðir sem fela í sér að farþegi má velja á milli fjórtán daga sóttkvíar eða að fara í skimun við komuna til landsins, svo fimm daga sóttkví og svo aðra skimun.
Að sögn Þórólf er til skoðunar hvort eitthvað eigi að breyta þessu vinnulagi, til dæmis hvort skylda eigi farþega frá ákveðnum löndum til að fara í skimun.