Niðurstöður tveggja nýrra rannsókna á yfirborði tungslins þykja gefa óyggjandi sannanir fyrir því það að finna megi vatnssameindir á tunglinu, og það í meira mæli en áður var talið.
Fyrri rannsóknir höfðu gefið til kynna að finna mætti vatnssameindir á tunglinu og þá á svæðum þar sem sólin nær aldrei að snerta með sólargeislum sínum. Í þetta skipti benda gögnin hins vegar til þess að vatnssameindir sé einnig að finna á svæðum þar sem sólin skín, og er því talið að finna megi vatn í meira mæli en fyrri rannsóknir höfðu bent til.
Einn af vísindamönnunum sem tók þátt í rannsóknunum segir vatnsmagnið jafngilda um 300 millilítrum á hvern rúmmetra af tungljarðvegi en enn á eftir að rannsaka hversu aðgengilegt vatnið er og nákvæmlega hvernig það hefur safnast fyrir, þar sem það hefur safnast fyrir.
Niðurstöðurnar gætu haft áhrif á tunglferðir framtíðarinnar þar sem mögulega er hægt að nýta vatnið sem finnst á tunglinu til drykkjar, svo dæmi séu tekin.
Nánar má lesa um þessa uppgötvun á vef NASA.
Vísindagreinarnar þar sem niðurstöðurnar eru kynntar má lesa hér og hér.