Fótbolti

Svíar lærðu af biturri reynslu í Reykjavík

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir getur grýtt boltanum langt inn í vítateig andstæðinganna.
Sveindís Jane Jónsdóttir getur grýtt boltanum langt inn í vítateig andstæðinganna. vísir/vilhelm

„Við höfum æft okkur fyrir löngu innköstin,“ segir Nathalie Björn, varnarmaður sænska landsliðsins, fyrir leikinn við Ísland í undankeppni EM í fótbolta í dag.

Svíar virtust ekki hafa unnið heimavinnuna nægilega vel fyrir leikinn við Ísland í Reykjavík fyrir mánuði síðan, hvað löng innköst íslenska liðsins varðar. Það viðurkenndi þjálfarinn Peter Gerhardsson og leikmenn eftir leikinn. Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari Íslands, hafði gætt þess að nota ekki þetta vopn gegn Lettlandi.

Ísland jafnaði metin í 1-1 með marki Elínar Mettu Jensen eftir langt innkast Sveindísar Jane Jónsdóttur, og Sveindís skapaði oftar hættu með fallbyssuskotum sínum af hliðarlínunni. Núna vita Svíar af hættunni sem þessi 19 ára nýja landsliðskona Íslands getur skapað:

„Við höfum æft okkur fyrir löngu innköstin. Það er fyrst og fremst mikilvægt að reyna að sleppa því að gefa mörg innköst. Síða snýst þetta bara um að vera með áætlun um hvernig við verjumst innköstunum þeirra,“ segir Björn.

Caroline Seger, fyrirliði Svía, tók í sama streng: „Núna vitum við af löngu innköstunum þeirra og það er auðvelt að vera vitur eftir á. Í síðasta leik var mikið af löngum innköstum, mikið af hléum á leiknum og þetta tók mikinn tíma. Þetta er leið fyrir þær til að skapa færi. Það felst stórt tækifæri í því fyrir Ísland að fá þessi föstu leikatriði,“ sagði Seger.


Tengdar fréttir

Bítast um íslensku ungstirnin

Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vöktu mikla athygli með frammistöðu sinni í landsleikjunum við Lettland og Svíþjóð í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×