Þjóðaröryggisráðstafanir voru færðar á hæsta stig í Frakklandi eftir að 21 árs karlmaður frá Túnis stakk þrennt til bana í Nice. Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir um hryðjuverkaárás að ræða.
Árásarmaðurinn er nú í haldi lögreglu og segist Macron ætla að tvöfalda þann fjölda hermanna sem sinnir öryggisgæslu innan landamæranna, úr 3.000 í 7.000.
„Við verðum í viðbragðsstöðu og munum standa vörð um öll bænahús, sérstaklega kirkjur svo allraheilagramessa geti farið fram. Þá munum við einnig vera í viðbragðsstöðu við skóla,“ sagði Macron.
Forsetinn sagði enn fremur að þetta væri þriðja árásin á íbúa Nice á skömmum tíma. Hann finni til með íbúum og hugsi til þeirra.
Lögreglan í Nice sagði í morgun brýna þörf á liðsauka. Hættan væri varanleg og öllum augljós.
Ekki eina árásin
Lögreglan í Mekku í Sádi-Arabíu sagði frá því í dag að einn hefði verið handtekinn eftir að hafa ráðist að öryggisverði á ræðisskrifstofu Frakka í Jeddah með eggvopni.
Þá skaut lögreglan í Avignon í Frakklandi mann til bana sem ógnaði vegfarendum með hnífi og réðist að lögreglu.
Óttast útskúfun
Frakkar hafa gripið til hertra aðgerða gegn meintum öfgahópum í landinu í kjölfar þess að Samuel Paty, kennari í París, var myrtur á dögunum eftir að hafa sýnt nemendum sínum umdeildar skopmyndir blaðsins Charlie Hebdo af Múhameð spámanni.
Morðið vakti hörð viðbrögð í Frakklandi. Ríkisstjórn Emmanuels Macrons forseta hefur meðal annars hert eftirlit með moskum í kjölfar þeirrar árásar og forsetinn hefur neitað að fordæma skopmyndirnar.
Þessi viðbrögð hafa farið öfugt ofan í fjölda múslima bæði innan Frakklands sem utan. Al Jazeera sagði frá því að margir franskir múslimar óttist nú útskúfun og þá hafa leiðtogar fjölda múslimaríkja hvatt landa sína til að sniðganga franskar vörur.