Íslenska fyrirtækið Carbon Iceland áformar að reisa lofthreinsiver á Húsavík sem gerir kleift að hreinsa og og binda milljón tonn af koltvísýringi úr andrúmslofti. Stjórnarformaður fyrirtækisins segir um að ræða byltingu í loftslagsmálum.
„Verði af framkvæmdinni yrði þetta eitt af stærri nýsköpunarverkefnum síðari ára hér á landi og efnahagsleg áhrif verkefnisins gætu orðið víðtæk. Aðalmálið er að það verið að sjúga úr andrúmsloftinu koltvísýring, heilmikið magn milljón tonn á ári. Sem er bylting í loftslagsmálum,“ segir Hallgrímur Óskarsson stjórnarformaður þess.
Hallgrímur segir þetta mögulegt eftir að fyrirtækið Carbon Iceland gerði samkomulagi við kanadíska hátæknifyrirtækið Carbon Engineering, sem hefur þróað og fengið einkaleyfi á öflugri aðferð til að hreinsa mikið magn af CO2 beint úr andrúmslofti.
„Áformað er að nota koltvísýringinn, sem verður bundinn, til að framleiða grænan koltvísýring til matvælaframleiðslu og hreint, grænt eldsneyti fyrir skip og önnur samgöngutæki,“ segir Hallgrímur.
Hann segir að enn eigi eftir að ganga frá fjármögnun.
„Viðræður við fjárfesta erlendis hafnar varðandi orkumál og staðsetningu,“ segir hann.
Forsvarsmenn fyrirtækisins voru með kynningu á verkefninu í dag. Hallgrímur segir um að ræða afar stórt verkefni sem taki nokkur ár að hefja en nú sé gert ráð fyrir að lofthreinsiverið verði við Húsavík.
Það má búast við að starfsemin hefjist 2024 ef allt gengur eftir,“ segir hann að lokum.