Viðskipti innlent

Margt þarf að ganga upp til að greiðslur berist fyrir mánaðarmót

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Veitingafólk telur mikilvægt að greiðslur vegna tekjufalls berist sem allra fyrst. Samdrátturinn sé svakalegur.
Veitingafólk telur mikilvægt að greiðslur vegna tekjufalls berist sem allra fyrst. Samdrátturinn sé svakalegur. visir/VIlhelm

Stefnt er að því að samþykkja frumvarp um tekjufallsstyrki fyrir lok vikunnar. Úrræðið hefur verið útvíkkað verulega. Veitingamenn óttast gjaldþrot í greininni og segja vanta meiri fyrirsjáanleika í aðgerðir stjórnvalda.

Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi frumvörp um lokunar- og tekjufallsstyrki úr nefnd í morgun. Tekjufallsúrræðið var útvíkkað verulega í meðferð nefndarinnar og miðast ekki lengur einungis við minni fyrirtæki.

„Heldur í rauninni öll fyrirtæki sem hafa þurft að horfa upp á gríðarlegt tekjufall vegna þessa faraldurs,“ segir Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Samkvæmt úrræðinu geta fyrirtæki sem hafa misst 40-70% af tekjum sínum fengið 400 þúsund króna styrk fyrir allt að fimm stöðugildi, en 500 þúsund ef tekjufallið er meira. Hámarkið miðað við sjö mánaða tímabil er því 14 til 17,5 milljónir króna.

Áður var áætlað að kostnaður við aðgerðina gæti numið um 14 milljörðum króna. Óli Björn gerir ráð fyrir að sú upphæð hækki nokkuð. Ekki liggi fyrir hversu mörg fyrirtæki falli nú þar undir.

„Með þessum breytingum erum við að ná til allra fyrirtækja á Íslandi sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40% tekjufalli. Hversu mörg þau eru kann ég ekki svarið við. Ég vona að þau séu færri en fleiri, en óttast að þau séu fleiri.“

Hrefna Björk Sverrisdóttir rekur veitingastaðinn Rok og er í stjórn félags fyrirtækja á veitingamarkaði.

Verði frumvarpið samþykkt fyrir lok vikunnar segir Óli Björn að það muni sennilega taka Skattinn nokkrar vikur að vinna úr umsóknum. Margt þurfi að ganga upp til að greiðslur berist fyrir mánaðarmót. Veitingakona segir brýnt að það gerist þar sem staðan sé mjög erfið.

„Samdrátturinn er svakalegur og það er mjög mikilvægt að þetta vinnist hratt, komist fljótt í gegnum þingið og að úrræðin standi til boða um næstu mánaðrmót. Það skiptir öllu máli,“ segir Hrefna Björk Sverrisdóttir, stjórnarkona í félagi fyrirtækja á veitingamarkaði.

Hún segir að jafnaði 800 til 1.000 veitingahús starfandi á hverjum tíma og að staða þeirra sé misjöfn. „Það eru nú þegar einhverjir farnir og það munu fleiri bætast í hópinn, ég held að það sé óhjákvæmilegt, því miður.“

Úrræðið muni nýtast vel og fleyta mörkum yfir erfiðan vetur. Veitingamenn kalla þó eftir meiri fyrirsjáanleika. „Þannig það sé hægt að gera plön með  starfsfólki, sagt þeim að þau séu með vinnu milli mánaða og að haldið verði áfram.“ 

Þá er ákall um fleiri úrræði; að virðisaukaskattur á veitingahúsum verði lækkaður tímabundið og að hlutabótaleiðin verði aðlöguð að þörfum veitingageirans þannig  að krafa um starfshlutfall verði lækkuð.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.Vísir/Arnar

Jóhannes Þór Skúlasón, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, segir aðgerðina gríðarlega mikilvæga. „Það verður áhugavert að sjá hvernig hún harmonerar með viðspyrnustyrkjunum,“ segir hann.

Fyrir helgi boðaði ríkisstjórnin viðspyrnustyrki og er unnið að því frumvarpi. Þeir verða háðir sams konar skilyrðum og tekjufallsstyrkir og veittir með reglulegum greiðslum fram á mitt næsta ár, að því er sagði í kynningu. Úrræðinu er þannig ætlað að tryggja að fyr­ir­tæki, sem orðið hafa fyr­ir tekju­falli geti viðhaldið nauðsyn­legri lág­marks­starf­semi á meðan áhrifa far­ald­urs­ins gæt­ir.

Jóhannes Þór telur þó að skynsamlegt hefði verið að útvíkka úrræðið enn frekar. Að tekjufallsstyrkurinn miðaði við níu starfsmenn og væri þar með hærri.  

„Það er talið að til skemmri tíma, eða næstu tveggja til þriggja ára sé það fyrst og fremst ferðaþjónustan sem getur leitt viðspurnu landsins upp úr þessum öldudal. Því þurfa atvinnutækin að vera til og betri stuðningur getur gert það að verkum að við náum hraðari viðspyrnu,“ segir Jóhannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×