271 létust síðasta sólarhringinn vegna Covid-19 í Frakklandi. Nú hafa alls 40.439 látist af völdum veirunnar þar í landi og hafa tæplega 1,8 milljónir manna greinst smitaðir af veirunni en rúmlega 38 þúsund manns greindust síðasta sólarhringinn.
Í gær greindist metfjöldi með veiruna í Frakklandi, alls 60.486 en aldrei hafa áður greinst jafn margir með veiruna á einum sólarhring.
Fyrir rétt rúmri viku síðan var gripið til hertra aðgerða í Frakklandi til þess að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Stefnt er að því að aðgerðirnar gildi út nóvembermánuð en í þeim felst útgöngubann með nokkrum undantekningum.
Útgöngubann er frá klukkan tíu að kvöldi til sex að morgun og gildir það fyrir allt landið. Þá hefur öllum verslunum og þjónustustöðvum sem ekki veita nauðsynlega þjónustu verið gert að loka. Skólar, leikskólar og dagheimili barna eru þó áfram opin.