Jólalögin eru komin í spilun á útvarpsstöðvum núna, mörgum til mikillar gleði þó einhverjum þyki þetta of snemmt. LéttBylgjan 96.5 er orðin að jólastöð líkt og á hverju ári. Þeir sem eru komnir snemma í jólaskapið geta því hlustað á jólalög allan daginn næstu sex vikurnar á meðan talið er niður í jólin. Einnig er Retro kominn í jólabúning á 89.5 og Flashback Jól má líka finna á 101.5 þessa dagana. Annars staðar eru jólalögin spiluð í bland við önnur lög fram í desember.
Hlustendur útvarpsstöðvanna munu líka fá að heyra eitthvað af nýrri íslenskri jólatónlist þessa aðventuna. Jóhanna Guðrún frumflutti nýtt jólalag á Bylgjunni í gær og sendir frá sér jólaplötu í næstu viku. Platan hennar Jól með Jóhönnu kemur út 19. nóvember.
Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson senda líka frá sér jólaplötuna Það eru jól, þann 27. nóvember. Munu þar verða ný jólalög í bland við þeirra vinsælustu. Emmsjé Gauti tilkynnti líka á dögunum að hann ætlar að gefa út jólaplötu þetta árið, Það eru komin jül. Fleiri tónlistarmenn munu svo eflaust gefa frá sér jólatónlist næstu vikur.
Hér fyrir neðan má hlusta á Jólastöð LéttBylgjunnar.