Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands segist sannfærður um að Bretlandi muni vegna vel, þó svo að samningar við Evrópusambandið náist ekki. Samningaviðræður hófust aftur í dag og sagði aðalsamningamaður Breta viðræður hafi gengið þokkalega.
„Við erum að leggja mikið á okkur til að ná samningi en það er enn margt sem á eftir að gera,“ sagði David Frost í samtali við blaðamenn í dag. Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, sagði nauðsynlegt að samstarf við Bretland væri opið en sanngjarnt.
🇪🇺🇬🇧 The @vonderleyen @EU_Commission negotiating team is continuing negotiations in Brussels this week w/ @DavidGHFrost & team.
— Michel Barnier (@MichelBarnier) November 16, 2020
With @Europarl_EN & all Member States, we remain determined, patient, respectful.
We want our future cooperation to be open but fair in all areas. pic.twitter.com/l54suVhY0I
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins gengur erfiðlega að sammælast um samkeppnisreglur, ríkisaðstoð til fyrirtækja og stjórnun á fiskimiðum.
Bretar yfirgáfu Evrópusambandið 31. janúar en fylgja reglum sambandsins út árið á meðan samningaviðræður standa yfir. Ef samningar nást ekki fyrir lok árs fer verslun milli Bretlands og annarra Evrópusambandsríkja eftir reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og tollar lagðir á ýmsar vörur.
Samningurinn þarf að vera samþykktur af bæði Evrópuþinginu og breska þinginu. Því er ljóst að samningsaðilar hafa stuttan tíma ef það á að nást fyrir 31. desember.