Innlent

Umhleypingar í kortunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Brim á Álftanesi.
Brim á Álftanesi. Vísir/Vilhelm

Draga mun í dag úr þeirri suðvestanátt sem hefur ráðið ríkjum á Íslandi undanfarna sólarhringa og er von á norðlægri átt á morgun. Áfram verður éljagangur á sunnan- og vestanverðu landinu og hiti í kringum frostmark.

Næsta vika hefst svo á umhleypingum þar sem von er á nokkuð djúpri lægð, hlýju lofti og rigningu. Seinna í vikunni stefnir þó í norðanátt og talsvert frost.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands en þar segir að í dag verði suðvestan 10-18 m/s, hvassast norðvestantil, en draga muni úr vindi þegar líður á daginn. Seint í kvöld muni ganga í suðaustan 8-13 og rigningu eða slyddu á Suðurlandi. Hiti verði nálægt frostmarki.

Á morgun er von á norðlægri átt 5-13 m/s og norðvestan 10-15 á austurlandi. Þá sé von á snjókomu með köflum norðantil en él um landið vestanvert. Hiti verður 0 til 4 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Hæg suðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og frost 1 til 8 stig. Vaxandi suðaustanátt síðdegis, þykknar upp og hlýnar heldur, 13-18 m/s og snjókoma eða slydda suðvestanlands um kvöldið, en rigning við ströndina.

Á þriðjudag (fullveldisdagurinn):

Allhvöss eða hvöss sunnanátt með rigningu í fyrstu, síðar suðvestlægari með skúrum eða éljum, en léttir til NA-lands. Hiti 1 til 8 stig, mildast á Suðausturlandi.

Á miðvikudag:

Norðlæg eða breytileg átt og él, en norðaustanhvassviðri og snjókoma norðvestantil. Kólnandi veður.

Á fimmtudag og föstudag:

Útlit fyrir allhvassa norðanátt og snjókomu eða éljagang, en úrkomulítið sunnan heiða. Talsvert frost um land allt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×