Gular veðurviðvaranir fyrir Faxaflóa, Suðurland, Norðurland eystra og miðhálendið tóku gildi á hádegi í dag en hvöss suðvestanátt gengur nú yfir landið.
Eftir daginn í dag skiptir veðrið um gír og útlit er fyrir að fyrsti alvöru norðanáttarkafli vetrarins sé væntanlegur á næstu dögum, líkt og birtist á veðurviðvörunarkorti Veðurstofunnar.
Gulu viðvaranirnar taka fyrst gildi á Breiðafirði og Vestfjörðum klukkan níu á morgun þar sem gert er ráð fyrir norðan hvassviðri með éljum þar sem vindur getur náð 25 m/s, útlit er fyrir léleg skyggni og færð getur spillst.
Síðar um daginn færist veðrið yfir nær allt landið og frá klukkan 18 á morgun taka gular viðvaranir gildi yfir allt landið, ef frá er talið höfuðborgarsvæðið. Á Suðurlandi og Faxaflóa geta hviður farið í allt að 40 m/s.

Á sunnanverðu landinu er gert ráð fyrir lítilli úrkomu, einungis dálitlum éljum á víð og dreif. Þó ber að nefna að þar sem laus snjór er á jörðu, mun hann fara af stað og mynda skafrenning. Á norðurhelmingi landsins má búast við snjókomu og gæti hún orðið í nægilegu magni til að tala megi um stórhríð með köflum á Norður- og Norðausturlandi.
Síðan gera spár ráð fyrir að norðanáttin haldi sama styrk á fimmtudag, en það herðir á frostinu þegar hrollkalt loft berst yfir okkur beint norðan úr Íshafinu. Ekki er gert ráð fyrir að norðanvindurinn gangi niður að gagni fyrr en eftir hádegi á föstudag og þá fer að stytta upp og létta til.