Tölur frá Wodanalytics sýna það að íslensku CrossFit stelpurnar voru með hæsta hlutfallið í heiminum þegar kom að þátttöku á síðustu heimsleikum í CrossFit.
Wodanalytics tók þessar tölur saman í tilefni af því að það eru 77 dagar í það að nýtt keppnistímabil í CrossFit hefjist með The Open 2021.
Íslenskar CrossFit konur voru nefnilega 53,1% af þeim sem tóku þátt í The Open 2020 á Íslandi. Þetta var hæsta hlutfallið í heiminum örlítið á undan Noregi(52.3%) og Finnlandi (51.0%).
Þessar þrjár Norðurlandaþjóðir voru þær einu þar sem konur voru í meirihluta hjá þátttakendum í opna hluta heimsleikanna.
Wodanalytics tók sérstaklega fyrir þær þjóðir sem voru inn á topp tuttugu yfir flesta þátttakendur á The Open árið 2020.
Það er svo sannarlega nóg af flottum fyrirmyndum þegar kemur að íslenskum CrossFit konum og það er enginn vafi að sú staðreynd á mikinn þátt í þessum tölum.
Anníe Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Sara Sigmundsdóttir hafa allar annaðhvort unnið heimsmeistaratitilinn eða komist á verðlaunapall og Þuríður Erla Helgadóttir endaði í níunda sæti á heimsleikunum í fyrra.
Ísland er á toppnum en á hinum endanum er Portúgal þar sem aðeins 24,6 prósent þátttakenda voru konur. Indland er í öðru sæti og Spánn í því þriðja. Aðeins 25,4 prósent þátttakenda frá Spáni voru konur.