Yfir hundrað þúsund manns liggja nú á sjúkrahúsi vegna veikinda af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum og heldur áfram að fjölga. Þá gerir spálíkan Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) ráð fyrir allt að 23 þúsund Covid-innlögnum á dag í lok desember. Þá greindust yfir 217 þúsund með veiruna í landinu í gær og hefur nýgreindum farið fjölgandi dag frá degi síðustu vikur.
Áðurnefndur Fauci hefur þungar áhyggjur af ástandinu.
„Ég held að janúar verði hryllilegur vegna þess að við fáum þakkargjörðarbylgjuna ofan í jólabylgjuna. Þannig að það gæti vel verið að janúar verði verstur,“ segir Fauci í samtali við Newsweek í dag.
Hann bendir á að smitum muni áfram fjölga í að minnsta kosti þrjár vikur eftir mannamót og ferðalög í kringum þakkargjörðarhátíðina, sem bar upp á fimmtudag í síðustu viku. Þeim muni, því miður, fylgja fleiri innlagnir á sjúkrahús og dauðsföll.
Yfir fjórtán milljónir hafa nú smitast af kórónuveirunni í Bandaríkjunum, samkvæmt tölum Johns Hopkins-háskólasjúkrahússins. Rúmlega 270 þúsund hafa látist af völdum veirunnar í landinu.