Jón Þór Hauksson er hættur sem þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu eftir þann trúnaðarbrest sem varð í fögnuð íslenska landsliðshópsins í Búdapest eftir að EM sætið var tryggt.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að málefni Jóns Þórs Haukssonar hafi ekki verið rædd á stjórnarfundi KSÍ 3. desember þrátt fyrir að Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður sambandsins, hafi setið fundinn. Benedikt Bóas Hinriksson skrifar frétt um þetta í Fréttablaðinu í morgun.
Borghildur var með íslenska landsliðinu út í Ungverjalandi og hún er formaður Landsliðsnefndar kvenna.
Stjórnarfundurinn hjá KSÍ fór fram fimmtudaginn 3. desember en íslensku stelpurnar tryggðu sér sæti á EM þriðjudagskvöldið 1. desember. Stjórnarmenn KSÍ fréttu því af því sem gerðist með því að lesa fjölmiðla en fótbolti.net sagði fyrst frá því sem hafði komið fyrir þetta kvöld í Búdapest.
Borghildur hefur ekki viljað tjá sig um ferðina við fjölmiðla og alltaf bent á Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra sambandsins.
Jón Þór óskaði eftir starfslokum hjá Knattspyrnusambandi Íslands í gær og eru því bæði A-landslið Íslands í knattspyrnu nú án þjálfara.