Jón Þór lét af störfum sem þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta í fyrradag. Í yfirlýsingu frá honum sagðist hann hafa farið yfir strikið í samtölum sínum við leikmenn er hann var undir áhrifum áfengis í Ungverjalandi á þriðjudaginn í síðustu viku.
Íslenska liðið fagnaði því þá að vera komið á EM 2022 í Englandi en Fréttablaðið greindi fyrst frá því í gærmorgun að ekkert hafi verið um málið rætt á stjórnarfundi 3. desember síðastliðnum, tveimur dögum eftir að atvikið átti sér stað.
Stjórnarfundur KSÍ var 3. desember en íslenski hópurinn fagnaði sæti á EM 1. desember.
Posted by Sportið á Vísi on Miðvikudagur, 9. desember 2020
Guðni sagði í samtali við Vísi að ástæðan fyrir því að uppákoman í Ungverjalandi hafi ekki verið rædd á stjórnarfundinum væri einfaldlega sú að málið væri viðkvæmt starfsmannamál.
„Ástæðan fyrir því að málið var ekki rætt var einfaldlega sú að það var viðkvæmt og persónulegt starfsmannamál sem snéri einnig að nokkrum leikmönnum og enn var verið að safna upplýsingum um það hvað raunverulega gerðist,“ sagði Guðni í svari við fyrirspurn Vísis.
Fótbolti.net greindi frá því á mánudaginn að KSÍ hefði ákveðið að reka Jón Þór áður en aðilar hittust og ræddu málin. Guðni blæs á þær sögusagnir.
„Málið kom því ekki fyrir stjórn sambandsins og því engin ákvörðun verið tekin í málinu hvorki af stjórnendum eða stjórn sambandsins áður en að Jón Þór tók sína ákvörðun með að hætta störfum.“
Guðni leitar nú að þjálfurum í bæði A-landsliðin þar sem karlalandsliðið er án þjálfara eftir að Erik Hamrén lét af störfum.