Viðræður munu halda áfram en samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er Johnson ekki bjartsýnn. Enn væri langt í land en aðeins þrjár vikur eru í að aðlögunarferli Breta við útgöngu úr Evrópusambandinu ljúki nú um áramótinu. Samningsaðilar hafa gefið það út að það ætti að liggja fyrir á sunnudag hvort samningar náist.
Evrópusambandið hefur gefið út viðbragðsáætlun sem gripið verður til ef fer sem horfir og aðlögunartímabilinu í kjölfar Brexit lýkur án samnings, en sú áætlun miðar að því að tryggja samgöngur og áframhaldandi veiðar.
Johnson sakar Evrópusambandið um að vilja „læsa Bretland“ inn í regluverki sambandsins ella eiga yfir höfði sér „refsingar“ á borð við innflutningstolla. Samningamenn Breta væru þó tilbúnir til þess að leggja mikið á sig og sjálfur væri hann fús til þess að ferðast til Parísar eða Berlín fyrir áframhaldandi samningaviðræður.
Að mati Johnson fela tillögur Evrópusambandsins það í sér að Bretar yrðu nokkurs konar tvíburi þeirra þjóða sem eiga aðild að sambandinu. Heimildir breska ríkisútvarpsins herma að Bretar hafi lagt fram nýjar tillögur á miðvikudag, sem breyttu litlu varðandi stöðu viðræðna. Þá er fullyrt að viðræður gætu staðið lengur en til sunnudags.
Keir Starmer, leiðtogi breska verkamannaflokksins, hvatti Johnson til þess að „drífa í því að ná í samning“ og leita lausna á útistandandi ágreiningsatriðum. Það væri ekki ómögulegt. Þá væri það hagur þjóðarinnar að Bretar næðu samningi við sambandið.