Þetta staðfestir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum í samtali við Vísi. Alls greindust 22 með veiruna í gær, tíu á landamærum og tólf innanlands eins og áður segir.
Alls hafa átta greinst í tengslum við umrætt klasasmit meðal hælisleitenda; sex í gær og tveir dagana á undan. Allir sex sem greindust í gær voru því í sóttkví. Rögnvaldur segir að ráðist hafi verið í víðtæka skimun í gær og fólkið greinst í henni. Þá telur hann að uppruni klasasmitsins liggi fyrir en hefur ekki frekari upplýsingar um smitrakninguna.
Tólf með staðfest kórónuveirusmit voru fluttir í farsóttarhúsið á Rauðarárstíg í gærkvöldi. Þetta staðfestir Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður hússins í samtali við fréttastofu í morgun.