Soffía Dögg viðurkennir sjálf að byrja stundum að skreyta í október, enda alltaf verið mikið jólabarn.
„Ég hef alltaf verið ótrúlegur dótasafnari, það er bara svoleiðis. Ég hef alltaf verið rosalega mikið jólabarn, mamma og pabbi skreyttu rosa mikið.“
Í þættinum má sjá hvernig heimili Soffíu Daggar kemst í fallegan jólabúning fyrir hátíðarnar, með skrauti sem var nú þegar til á heimilinu og svo kíkti hún einnig í búðir. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Aldrei rauð jól á Álftanesinu
Síðasti þátturinn af Skreytum hús var einstaklega persónulegur, enda bauð þáttastjórnandinn Soffía Dögg áhorfendum inn á heimili sitt á Álftanesi. Þar sýndi hún meðal annars magnið sem hún á af jólakössum uppi á háalofti.
„Ég er bara alin upp við að jóla pínulítið yfir mig á hverju einasta ári,“ viðurkennir Soffía Dögg í þættinum. Það þarf svosem ekki að koma neinum á óvart, því skreytingar heimilisins eru hennar atvinna í dag.

„Jólin mín eru ekki rauð, það eru svo margir sem tengja rauðan við jólin og ég er ekki þar,“ útskýrir Soffía. Hvíti liturinn spilar því stórt hlutverk í hennar jólaskreytingum.

„Svo er bara ótrúlega gaman að kíkja í búðirnar og skoða hvað er til, því það er alltaf eitthvað nýtt sem maður sér sem kveikir svo margar nýjar hugmyndir.“

„Dass af glimmeri“
Hjá Soffíu var það meðal annars grenilengja með glimmeri í ár auk fallegra hreindýra og hnotubrjóta.

Soffía keypti sér svo svarta hillu til þess að ná að koma fyrir meira af jólaskrauti, það verður ekki annað sagt en að fagurkerinn Soffía hugsi í lausnum.
„Burstatré eru í rosalegu uppáhaldi hjá mér og svo má aldrei gleyma dassi af glimmeri.“

Soffía hefur þá hefð að nota gömlu B&G Juleaften diskana fyrir forréttinn á jólunum. Sjálf kýs hún að hafa allan matinn til hliðanna og á eyjunni í eldhúsinu og skreyta miðju borðsins fyrir aðfangadagskvöld.

„Mér finnst svo gaman að skreyta fyrir þessa hátíð og þetta er eitthvað sem ég nýt þess að gera.“

Í ítarlegri bloggfærslu á síðunni Skreytum hús má finna frekari upplýsingar um jólaskreytingarnar og þær vörur sem Soffía Dögg notaði til þess að breyta heimilinu fyrir hátíðarnar.

Hægt er horfa á lokaþátt Skreytum hús í heild sinni í spilaranum hér ofar í fréttinni. Þættirnir hafa verið sýndir á þriðjudögum hér á Vísi og má einnig finna þá Stöð 2 Maraþon.