Mbl.is ræddi við Kára um málið.
„Á mánudaginn fékk ég jákvæðar niðurstöður úr kórónuveiruprófi. Það kom í ljós síðasta laugardag að einn úr liðinu var smitaður og við fórum þá allir í próf á sunnudeginum. Vorum þrír sem reyndumst einnig smitaðir, erum því í einangrun og aðrir í liðinu í sóttkví. Þetta er því brösug byrjun en fyrir utan hana líst mér vel á að vera kominn út aftur,“ sagði Kári í viðtali við mbl.is.
„Ég var með einkenni í gær og í fyrradag [mánudag og þriðjudag] en er betri í dag [í gær]. Er bara slappleiki og ekkert alvarlegt. Vona að það sé bara búið og mér fannst þetta nokkuð svipað því að fá flensu eins og þetta var í mínu tilfelli,“ sagði landsliðsmaðurinn einnig.
Leikjum liðsins frestað
„Fer í annað próf í næstu viku, væntanlega fljótlega eftir helgi. Ef við fáum allir neikvæðar niðurstöður úr því getur liðið farið að æfa aftur. Áttum að spila þrjá leiki á liðlega viku en þeim var öllum frestað. Næsti leikur verður því ekki fyrr en 3. janúar sem er ágætt þar sem við fáum smá tíma til að koma okkur í gírinn,“ sagði Kári Jónsson, landsliðmaður í körfubolta og leikmaður Girona, að endingu.