Innlent

Gul við­vörun og leiðinda­veður á norð­vestan­verðu landinu

Sylvía Hall skrifar
Hvassviðri er á landinu norðvestanverðu í dag.
Hvassviðri er á landinu norðvestanverðu í dag. Vísir/Vilhelm

Leiðindaveður verður á norðvestanverðu landinu í dag og fram eftir mánudagsmorgni með tilheyrandi hvassviðri og stormi. Búist er við töluveðri ofankomu svo skyggni og færð gætu farið úr skorðum.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Búist er við umtalsverðum vinhviðum á Snæfellsnesi og eru gular viðvaranir í gildi á þeim slóðum. Vindhviður á sunnanverðu Snæfellsnesi gætu farið yfir fjörutíu metra á sekúndu og eru aðstæður því varasamar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Allmikilli úrkomu er spáð á Norðaustur- og Austurlandi. „Það mun þó ekki standa lengi og ætti ekki að hafa mikið að segja í þegar vatnsmettaðan Seyðisfjörð,“ segir í hugleiðingunum.

Veður ætti að vera orðið betra í flestum landshlutum þegar líður á morgundaginn en þó fyrstir um allt land þar sem áhrif sólarinnar eru í lágmarki á vetrarsólstöðum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag (vetrarsólstöður):

Norðlæg átt, 5-13, skýjað og él N- og A-lands, en hægari og þurrt um kvöldið. Kólnandi veður, frost 0 til 5 stig seinnipartinn.

Á þriðjudag:

Vestlæg átt 3-8 og bjart með köflum, en dálítil él V-lands síðdegis. Frost 2 til 13 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.

Á miðvikudag (Þorláksmessa):

Fremur hæg vestanátt og skýjað með köflum, en suðlægari og dálítil él vestast um kvöldið. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum á N- og A-landi.

Á fimmtudag (aðfangadagur jóla):

Allhvöss eða hvöss sunnanátt og rigning, einkum S- og V-lands. Hlýnar talsvert.

Á föstudag (jóladagur):

Snýst í ákveðna suðvestanátt með éljum, en léttir til NA-lands síðdegis. Kólnandi veður.

Á laugardag (annar í jólum):

Útlit fyrir áframhaldandi SV-átt með éljum S- og V-til. Frost um mest allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×