Biden heimsótti sjúkrahús í bænum Newark í Delaware-ríki þar sem hjúkrunarfræðingur að nafni Tabe Masa sprautaði bóluefni Pfizer og BioNTech í hægri handlegg hins verðandi forseta
Vika er liðin frá því að bólusetningar á forgangshópum hófust í Bandaríkjunum en stutt er síðan Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna veitti neyðarleyfi svo að bólusetning með bóluefni Pfizer gæti hafist í Bandaríkjunum.
Það fór vel á með þeim Masa og Biden á meðan sú fyrrnefnda undirbjó sprautuna sem er sú fyrri af tveimur sem þarf til að ná 95 prósent virkni gegn veirunni. Ekki hefur verið greint frá því hvenær síðari bólusetning Bidens fer fram.
Myndavélarnar fylgdust grannt með þegar Biden var sprautaður en helstu sjónvarpsstöðvar í Bandaríkjunum sýndu beint frá viðburðinum.
„Ég er að gera þetta til þess að sýna fram á að Bandaríkjamenn eiga að vera reiðubúnir þegar tækifærið gefst að fá bóluefnið. Það er algjörlega óþarft að hafa áhyggjur,“ sagði Biden.
WATCH: President-elect Biden receives coronavirus vaccine.
— MSNBC (@MSNBC) December 21, 2020
"I’m doing this to demonstrate that people should be prepared when it’s available to take the vaccine." pic.twitter.com/YBpcOE38O5
Kórónuveirufaraldurinn hefur verið í talsverðum vexti í Bandaríkjunum í vetur en alls hafa yfir 150 þúsund manns greinst með veiruna daglega undanfarna daga. Frá því í vor hafa 17,9 milljón tilfelli greinst í Bandaríkjunum og 318 þúsund hafa látist.
Biden hefur sagt að það verði forgangsverkefni hans þegar hann tekur við embætti forseta að dreifa bóluefni til Bandaríkjamanna eins fljótt og auðið er.