Lífið

„Vendu þig af því að henda öllu inn í geymslu til að flýja draslið“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sólrún Diego gaf út skipulagsbók og dagbók fyrir þessi jólin.
Sólrún Diego gaf út skipulagsbók og dagbók fyrir þessi jólin. Íris Dögg Einarsdóttir

„Geymsurýmið er líklega það rými sem oftast er óskipulagt á heimilum og það er auðvelt að flýja draslið með því að setja það inn í geymslu. Aftur á móti borgar það sig að dótið í geymslunni þvælist ekki fyrir manni og hægt sé að ganga að hlutunum vísum,“ segir Sólrún Diego höfundur bókanna Skipulag og Heima.

Þegar kemur að skipulagi á geymslum er að hennar mati mikilvægt að sjá rýmið fyrir sér. Því næst þarf að kaupa öll skipulagstól sem þarf eins og hillur, kassa og merkimiða áður en farið er af stað í þetta verkefni. Margir eiga erfitt með næsta skref, sem er flokkun og í bókinni Skipulag talar Sólrún um fimm undirflokka sem hún fjallar nánar um í bókinni.

  • Það sem á að henda
  • Það sem á að gefa
  • Það sem á að selja
  • Það sem á að færa
  • Það sem á að eiga

Eftir það þarf að endurraða í geymslurýmið svo það verði sem aðgengilegast. Sólrún ráðleggur fólki að hafa í huga aðgengið, veggplássið og að hafa hluti sem eru notaðir reglulega á stað þar sem auðvelt er að komast að þeim.

Sólrún Diego heldur úti vinsælum Instagram reikningi þar sem hún er dugleg að gefa góð ráð. @solrundiegoÍris Dögg Einarsdóttir

Hér fyrir neðan má svo finna ráð Sólrúnar um að viðhalda góðu skipulagi á geymslurýminu.

  1. Taktu til í geymslunni árlega. Flokkaðu hluti í grunnflokkana fimm - henda, gefa, selja, færa og eiga. Losaðu þig við þá hluti sem þú hefur ekki notað frá síðustu tiltekt.
  2. Vertu með kassa í geymslurýminu undir dót sem þú vilt gefa, selja eða henda. Í hvert sinn sem þú tekur til í rýminu skaltu fara í gegnum kassann. Þetta gerir árlegu tiltektina mun bærilegri.
  3. Gakktu frá hlutum jafnóðum svo drasl safnist ekki upp og þú þurfir sífellt að byrja á byrjunarreit þegar kemur að skipulagi.
  4. Hafðu eins lítið dót og mögulegt er í geymslunni. Gefðu hlutum frekar nýtt líf en að sanka að þér dóti sem þú munt sennilega ekki koma til með að nota.
  5. Vendu þig af því að henda öllu inn í geymslu til að flýja draslið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×