Tímabil Barcelona hefur ekki verið neinn dans á rósum. Ronald Koeman tók við sem þjálfari í sumar er allt var í rjúkandi rúst eftir 8-2 tap í Meistaradeild Evrópu gegn verðandi Evrópumeisturum í Bayern. Þá hafði félagið ekki fundið taktinn eftir að La Liga fór af stað eftir Covid-pásuna og missti af spænska meistaratitlinum í hendurnar á erkifjendum sínum í Real Madrid.
Börsungar losuðu sig við Luis Suarez og í kjölfarið ákvað Lionel Messi að hann vildi skipta um félag. Hann ákvað á endanum að vera áfram en getur samið við annað félag strax í janúar. Þá meiddist Gerard Pique illa í lok nóvember og hefur ekkert leikið með liðinu síðan þá.
Messi sjálfur var svo á meiðslalistanum er liðið gerði 1-1 jafntefli við Eibar í síðustu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar. Til að bæta gráu ofan á svart kom Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho af bekknum í þeim leik og meiddist einnig. Hann gæti verið frá í einhverjar vikur.
Jafnteflið gegn Eibar þýðir að Börsungar eru aðeins með 25 stig eftir fimmtán umferðir í La Liga. Það er versti árangur liðsins í 17 ár eða síðan tímabilið 2003/2004 þegar Frank Rijkaard var þjálfari liðsins. Líkt og Koeman þá er Rijkaard einnig Hollendingur.
Tímabilið 2003/2004 voru Börsungar aðeins með tuttugu stig á þessum tímapunkti leiktíðarinnar en náðu að rétta úr kútnum og enda í 2. sæti með 72 stig, fimm stigum á eftir Valencia sem urðu meistarar það tímabil.
Sem betur fer er deildin í ár mjög jöfn og eru Börsungar aðeins stigi frá Real Sociedad sem er í 3. sæti deildarinnar. Hins vegar eru Atlético Madrid á toppi deildarinnar með 10 stigum meira en Börsungar ásamt því að eiga leik til góða.
Næsti leikur lærisveina Koeman er gegn Huesca á útivelli þann 3. janúar. Verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.