Tilraun til ráns var gerð í Árbæjarlaug í gærkvöldi, rétt fyrir klukkan tíu. Þar kom kona ein inn í afgreiðslu laugarinnar og ógnaði starfsfólkinu um leið og hún heimtaði peninga. Konan flúði síðan af vettvangi áður en orðið var við kröfum hennar.
Í skeyti frá lögreglu segir að þegar verið var að leita að konunni í hverfinu hafi komið tilkynning frá heimili í grenndinni þar sem kona hafði farið inn í forstofu og stolið þaðan bíllyklum.
Húsráðandi náði að stöðva för konunnar þegar hún var komin inn í bifreið hans og var hún handtekin.
Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að skömmu eftir klukkan eitt í nótt hafi verið tilkynnt um þjófnað í hverfi 101 í Reykjavík. Erlendir ferðamenn höfðu þar verið með bakpoka sinn á veitingahúsi í miðborginni og var pokinn eftirlitslaus um skamma stund.
Þá hafði maður farið í pokann og stolið þaðan áfengisflösku og greiðslukortum. Atvikið náðist á eftirlitsmyndavél.