Sport

Solskjær vildi halda Lukaku sem hafði ekki orkuna í að vera áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær og Lukaku á síðustu leiktíð en Lukaku hefur farið á kostum á Ítalíu í vetur.
Solskjær og Lukaku á síðustu leiktíð en Lukaku hefur farið á kostum á Ítalíu í vetur.

Romelu Lukaku, sem gekk í raðir Inter frá Man. United í sumar, segir að hann hafi ekki haft orkuna til að vera áfram hjá félaginu þrátt fyrir að Ole Gunnar Solskjær, stjóri liðsins, hafi viljað halda honum.

Lukaku gekk í raðir Inter í ágúst eftir að hafa verið í tvö ár á Old Trafford en oft á tíðum, sér í lagi á öðru tímabilinu, fékk hann mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína.

Solskjær sagði í september að það hafi verið rétt ákvörðun að láta Lukaku fara því þá myndi skapast fleiri og betri tækifæri fyrir ungstirnið Mason Greenwood. Lukaku var í viðtali á YouTube við Ian Wright.

„Það geta allir átt eitt slakt tímabil á ferlinum. Þetta var bara búið hjá okkur. Þú veist hvað gerðist á bakvið tjöldin. Þetta var bara búið,“ sagði Lukaku áður en hann hélt áfram:

„Þetta var erfið staða því ég sjálfur þurfti að taka ákvörðun hvert ég ætti að fara og hvar ég gæti haldið áfram að þróa leik minn. Ég vildi fara í lið þar sem liðið vildi einnig vinna með mér.“

„Ole vildi halda mér en ég sagði honum að þetta væri búið. Ég hafði ekki orkuna. Hann á mikið hrós skilið því hann er alvöru maður og hjálpaði mér að komast í burtu,“ sagði Belginn.

Lukaku hefur fundið sig vel á Ítalíu. Þar hefur hann skorað sautján mörk í 25 deildarleikjum fyrir Inter sem er í 3. sæti deildarinnar en deildin er sem kunnugt er í pásu vegna kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×