Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi með eggvopn í hendi þar sem hann barði á hurðir nágranna og var með hótanir í fjölbýlishúsi í vesturbæ Reykjavíkur í gær.
Í dagbók lögreglu segir að tilkynningin hafi komið um 20:30.
Þá segir að maðurinn hafi verið handtekinn eftir langar viðræður og svo fluttur í fangageymslu.
Er maðurinn grunaður um brot á vopnalögum og ofbeldi gegn opinberum starfsmanni.
Mbl.is segir frá því að atvikið hafi átt sér stað við Rekagranda og að sérsveitin hafi verið kölluð út vegna málsins.