Erlent

Ríkisstjórn Taívan skammast út í WHO

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirvöldum í Taívan hefur verið hrósað fyrir að koma í veg fyrir mikla útbreiðslu veirunnar og það að mestu vegna þess að þar var mjög fljótt gripið til aðgerða.
Yfirvöldum í Taívan hefur verið hrósað fyrir að koma í veg fyrir mikla útbreiðslu veirunnar og það að mestu vegna þess að þar var mjög fljótt gripið til aðgerða. AP/Chiang Ying-ying

Ríkisstjórn Taívan segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) ekki hafa deilt gögnum og upplýsingum baráttuna gegn faraldri nýju kórónuveirunnar þar í landi með öðrum ríkjum. Taívan er ekki aðili að WHO sem er stofnun Sameinuðu þjóðanna vegna þrýstings frá Kína, sem gerir tilkall til eyjunnar og hefur gert í áratugi.

Þar er fólk þó ósátt með aðildarleysið og segja að það að halda ríkinu utan WHO á meðan heimsfaraldur geisar sé í raun að spila pólitík með líf fólks í Taívan.

Yfirvöldum í Taívan hefur verið hrósað fyrir að koma í veg fyrir mikla útbreiðslu veirunnar og það að mestu vegna þess að þar var mjög fljótt gripið til aðgerða, samkvæmt frétt Reuters.

Í umfjöllun BBC segir að Taívan sé af mörgum talið eitt fárra ríkja heims sem hafi komið í veg fyrir faraldur án þess að grípa til umfangsmikilla inngripa í líf almennings eða koma niður á réttindum þeirra.

Í síðustu viku sagði ríkisstjórn Taívan að forsvarsmenn WHO hefðu hunsað spurningar þeirra í upphafi útbreiðslu nýju kórónuveirunnar.

Hér má sjá viðtal sjónvarpsstöðvar í Hong Kong við Bruce Aylward, aðstoðarframkvæmdastjóra WHO sem birt var á laugardaginn. Þar var hann spurður hvort WHO ætlaði að endurskoða aðild Taívan að stofnuninni.

Aylward sagðist ekki heyra spurninguna og bað fréttakonuna um að spyrja annarrar spurningar. Hún spurði þeirrar sömu aftur og virtist sem Aylward skellti á hana. Þegar hún hringdi aftur í hann og sagðist vilja tala um Taívan, sagðist hann þegar hafa talað um Kína.

Í gær sendi WHO svo út tilkynningu þar sem því var haldið fram að stofnunin fylgdist náið með vendingum í Taívan og að lexíur hefðu lærst vegna viðbragða þar. Í dags sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Taívan að WHO þyrfti að endurskoða þær óréttmætu takmarkanir sem settar hefðu verið á landið sem byggðu á pólitík.

Hann sagði að þrátt fyrir að Taívan gæti komið skilaboðum áleiðis til WHO og fengið upplýsingar þaðan, hefði WHO aldrei deilt upplýsingum frá Taívan áfram. Þar að auki hafi Taívan ekki fengið aðgang að bróðurparti funda WHO undanfarinn áratug.

Ofan á það tekur WHO alla tölfræði Taívan vegna faraldursins inn í tölfræði Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×