Lögregla sinnti í það minnsta sex útköllum frá klukkan 15 í gær þar til klukkan 5 í morgun vegna vímuefnaaksturs á höfuðborgarsvæðinu, en ökumennirnir voru undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þá var tilkynnt um innbrot í bifreið síðdegis í gær.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tvær líkamsárásir voru tilkynntar frá klukkan 15 í gær, sú fyrri á fimmta tímanum í gær og seinni á ellefta tímanum í gærkvöldi. Meintir árásarmenn voru handteknir í bæði skiptin.
Í tvígang var tilkynnt um þjófnað úr verslun, í fyrra skiptið skömmu fyrir átta í gærkvöldi þar sem einstaklingur hafði verið staðinn að þjófnaði í verslun í vesturbæ Reykjavíkur. Í seinna skiptið var tilkynnt um þjófnað í matvöruverslun á þriðja tímanum í nótt.
Rétt eftir klukkan tíu í gærkvöld var lögregla kölluð til vegna einstaklings sem hafði verið að spreyja á húsvegg í miðbæ Reykjavíkur.