Utanríkisráðherra Bretlands, og staðgengill forsætisráðherra, Dominic Raab vildi, í viðtali við Sky News, lítið segja um áform bresku ríkisstjórnarinnar um afléttingu takmarkana vegna faraldurs kórónuveirunnar í Bretlandi.
Raab sagði ótímabært að greina frá áformunum á þessu stigu faraldursins. „Við erum á viðkvæmu og hættulegu stigi og verðum að tryggja að næstu skref verði stigin af varúð,“ sagði Raab í viðtalinu og hvatti breta til þess að fylgja núgildandi viðmiðum og halda sig heima.
„Við förum með gát og fylgjum ráðleggingum lækna og vísindamanna á meðan við undirbúum okkur fyrir næstu stig faraldursins,“ sagði Raab sem leysir af Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á meðan hann jafnar sig af kórónuveirusýkingunni sem varð þess valdandi að Johnson var lagður inn á gjörgæslu um þriggja nátta skeið fyrr í mánuðinum. Johnson er væntanlegur aftur til starfa á morgun, mánudag.
Yfir 20.000 manns hafa látist af völdum kórónuveirunnar á Bretlandi og er talið að fjöldinn eigi eftir að hækka. Þá hefur efnahagur Bretlands einnig beðið hnekki.