Fótbolti

Ber­batov rifjar upp sárs­auka­fullt sím­tal frá Fergu­son fyrir úr­slita­leik Meistara­deildarinnar 2011

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dimitar Berbatov.
Dimitar Berbatov.

Dimitar Berbatov, fyrrum framherji Manchester United, var ekki í leikmannahópi United er liðið mætti Barcelona í úrslitaleiknum 2011. Hann rifjaði upp símtalið sem hann fékk frá Sir Alex Ferguson fyrir leikinn í samtali við talkSport.

Búlgarinn hafði spilað ansi vel á leiktíðinni. Hann hafði skorað tuttugu mörk í deildinni en hafði ekki skorað í þeim sjö Evrópuleikjum sem hann hafði spilað. Sir Alex ákvað því að byrja með Wayne Rooney og Javier Hernandez og geyma Michael Owen á bekknum en Berbatov utan hóps.

„Þetta var rétt fyrir leikinn og hann hringdi í mig og sagði: Berba, þetta er að drepa mig en ég verð að skilja þig eftir,“ sagði Berbatov en United endaði á því að tapa leiknum 3-1.

„Svona var það og þetta var sársaukafullt því ég var markaskorari liðsins og markahæstur í úrvalsdeildinni. Ég var hissa því ég var með það mikið sjálfstraust að ég hélt að ef ég myndi skjóta hvaðan sem er, þá myndi boltinn fara inn. Svo ég var hissa en þannig var þetta bara.“

Síðar meir hefur Ferguson rætt um þetta atvik en hann sagði meðal annars í viðtali við MUTV að hann vilji sjá breytingar á reglugerðinni.

„Ég skildi Berbatov eftir og hann tók því illa. Hann átti það heldur ekki skilið. Enginn leikmaður á skilið að vera utan hóps í úrslitaleiknum. Það er þess vegna sem við reynum að berjast fyrir því á þessum Evrópuþingum að fá ellefu menn á bekkinn í úrslitaleiknum,“ sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×