Fótbolti

„Held að það sé erfitt að lifa með þessu“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Demba Ba skorar markið fræga með Gerrard á hælunum.
Demba Ba skorar markið fræga með Gerrard á hælunum. vísir/getty

Í gær voru liðin sex ár frá deginum örlagaríka fyrir Liverpool er Steven Gerrrard rann á rassinn í leik gegn Chelsea sem tapaðist 2-0. Leikurinn var stór þáttur í að Liverpool missti af titlinum það árið.

Gerrard og Liverpool höfðu unnið ellefu leiki í röð er Jose Mourinho og lærisveinar hans komu í heimsókn en Liverpool þurfti sjö stig í síðustu þremur leikjunum til þess að tryggja sér titilinn.

Demba Ba skoraði fyrra markið eftir að Gerrard hafi runnið á rassinn og Willian tvöfaldaði forystuna í síðari hálfleik. Manchester City varð svo meistari en Demba Ba segist hafa fundið til með Gerrard:

„Ég held að það sé erfitt að lifa með þessu,“ sagði Demba Ba er Sky Sports rifjaði upp þennan leik í gær.

„Ef ég set mig í hans spor, sem ég hef ekki gert þangað til núna, þá hlýtur það að vera skelfilegt fyrir leikmann sem spilaði svo lengi með einu liði og sem hefur staðið sig svo vel að tapa titlinum á einum mistökum sem hann gerði.“

„Auðvitað finn ég til með honum. Ég hugsa þó ekki mikið um það.“

Gerrard tókst ekki að vinna Englandsmeistaratitilinn en hann stýrir nú Rangers í Skotlandi á meðan Demba Ba er enn að spila. Hann leikur með Istanbul Basaksehir í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×