Fótbolti

Trent væri til í að fá Sancho til Liverpool og segir hann með sérstaka hæfileika

Anton Ingi Leifsson skrifar
Trent hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur.
Trent hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur. vísir/getty

Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörður Evrópumeistara Liverpool, segir að hann væri til í að fá Jadon Sancho til félagsins og segir hann með sérstaka eiginleika.

Sancho á enn tvö ár eftir af samningi sínum hjá þýska félaginu Borussia Dortmund en hann hefur verið mikið orðaður við brottför frá félaginu. Manchester United og Chelsea eru taldir líklegustu áfangastaðirnir.

Það er minna um að vera hjá leikmönnum enska boltans þessar vikurnar vegna kórónuveirunnar og Trent nýtti tækifærið og spjallaði við leikarann Michael Dapaah á Instagram í gær. Þar var hann meðal annars spurður út í Sancho.

„Ef hann kæmi til okkar þá myndi hann gera liðið betra svo ég væri meira en ánægður ef hann kæmi því við höfum spilað saman með Englandi og hann er með sérstaka, sérstaka, sérstaka, sérstaka hæfileika!“ sagði Trent.

Dortmund sagðist ekki ætla að selja á Sancho fyrir minna en hundrað milljónir punda. Það var þó fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar og má ætla að Sancho hafi eitthvað lækkað í verði síðan þá.

Hann hefur komið að 60 mörkum í þýska boltanum frá því að hann skaust fram á sjónarsviðið og einungis Kylian Mbappe hefur komið að fleiri mörkum af þeim táningum sem hafa komið upp eftir tímabilið 2010/2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×