Fótbolti

Mourinho rifjaði upp eina skiptið þar sem hann grét eftir leik

Sindri Sverrisson skrifar
Jose Mourinho varð að játa sig sigraðan gegn Jupp Heynckes og hans mönnum hjá Bayern München.
Jose Mourinho varð að játa sig sigraðan gegn Jupp Heynckes og hans mönnum hjá Bayern München. VÍSIR/GETTY

Portúgalinn José Mourinho hefur verið einkar sigursæll á sínum ferli og unnið til fjölda titla, í Portúgal, á Englandi, Ítalíu og Spáni, en einnig mátt þola sár töp.

Mourinho segir í samtali við Marca að tapið sem hafi níst sárast sé frá því þegar hann stýrði Real Madrid. Liðið tapaði fyrir Bayern München í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu árið 2012, sama ár og Real setti stigamet í spænsku 1. deildinni. Mourinho hafði áður orðið Evrópumeistari sem stjóri Porto og Inter.

Þeir Cristiano Ronaldo, Kaka og Sergio Ramos klikkuðu hver um sig á sinni vítaspyrnu en með sigri hefði Mourinho mætt sínum gömlu lærisveinum í Chelsea í úrslitaleiknum. Chelsea varð Evrópumeistari með sigri á Bayern í vítaspyrnukeppni.

„Því miður þá er fótboltinn svona. Cristiano, Kaka, Sergio Ramos… þrír risar í fótboltanum, um það er ekki spurning, en þeir eru líka mannlegir,“ sagði Mourinho.

„Þetta kvöld er eina skiptið á ferli mínum sem þjálfari þar sem ég hef grátið eftir tap. Ég man þetta vel. Aitor [Karanka] og ég stoppuðum fyrir framan húsið mitt, í bílnum, grátandi. Þetta var gríðarlega erfitt vegna þess að við vorum besta liðið þetta ár,“ sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×