Erlent

Assange ekki sleppt gegn tryggingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum við Old Bailey, dómshúsið í London, í morgun.
Frá mótmælum við Old Bailey, dómshúsið í London, í morgun. AP/Matt Dunham

Julian Assange, stofnanda Wikileaks, verður ekki sleppt úr fangelsi gegn tryggingu að svo stöddu. Þetta var ákvörðun dómara í London eftir að verjendur Assange höfðu krafist þess að honum yrði sleppt.

Dómari þessi, Vanessa Baraitser, úrskurðaði fyrr í vikunni að ekki ætti að framselja Assange til Bandaríkjanna, eins og Bandaríkjamenn hafa krafist. Vísaði hún til geðheilsu Assange og sagði ekki hægt að framselja hann hennar vegna. Hann væri líklegur til að svipta sig lífi ef það yrði gert.

Bandaríkjamenn hafa krafist þess að Assange verði framseldur vegna ákæra fyrir samsæri um tölvuinnbrot og njósnir þar í landi. Ákærurnar má rekja til birtingar Wikileaks á hundruð þúsunda skjala Bandaríkjahers og utanríkisþjónustunnar árið 2010. Skjölunum var lekið til samtakanna af Chelsea Manning.

Sjá einnig: Assange ekki framseldur til Bandaríkjanna

Dómarinn sagði að Bandaríkin hefðu rétt á að áfrýja úrskurði sínum frá því á mánduaginn og virtist hún sammála þeim rökum lögmanns Bandaríkjanna að Assange væri líklegur til að flýja. Hann hefði sýnt fram á það áður og því væri ekki rétt að sleppa honum lausum gegn tryggingu.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar á Assange að vera áfram í fangelsi þar til búið er að taka áfrýjun Bandaríkjanna fyrir.

Frá því hann var handtekinn hefur Assange verið haldið í hámarksöryggisfangelsinu Belmarsh. Þar mun heilsa hans hafa versnað til muna og skrifuðu rúmlega sextíu læknar undir opið bréf þar sem þeir lýstu yfir alvarlegum áhyggjum af heilsufari hans. Læknarnir sögðust óttast að hann myndi deyja í fangelsinu.


Tengdar fréttir

Assange skipað að hafa sig hægan í dómsal

Dómari í London varaði Julian Assange, stofnanda Wikileaks við því að hann yrði fjarlægður úr dómsal og réttað yrði yfir honum fjarstöddum ef hann héldi áfram að trufla réttarhöldin í dag.

Assange neitað um lausn gegn tryggingu

Dómstóll hafnaði kröfu lögmanna Julians Assange, stofnanda Wikileaks, um að hann verði látinn laus gegn tryggingu í dag. Lögmennirnir héldu því fram að sleppa bæri Asssange vegna þess að hann væri í sérstakri hættu af kórónuveirunni.

Segja Assange sæta illri meðferð í fangelsi

Lögmenn stofnanda Wikileaks segja að hann hafi ítrekað verið handjárnaður og berstrípaður eftir fyrsta dag réttarhalda um framsal hans til Bandaríkjanna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×