Þetta hafa blaðamenn New York Times eftir heimildarmönnum sínum innan Hvíta hússins.
Hingað til hefur þó enginn forseti náðað sjálfan sig og er óljóst hvort það sé yfir höfuð hægt. Fræðimenn eru á báðum áttum varðandi það en eru sammála um að það skapaði hættulegt fordæmi. Forsetar gætu þá einhliða lýst því yfir að þeir væru yfir lögin hafnir.
Viðræður þessar munu hafa átt sér stað áður en Trump þrýsti á innanríkisráðherra Georgíu um að „finna“ næg atkvæði úr forsetakosningunum í nóvember svo hann gæti lýst yfir sigri í ríkinu. Það gæti verið brot á kosningalögum.
Sjá einnig: Tóku Trump upp ef hann segði ósatt frá, sem hann svo gerði
Trump gæti sömuleiðis átt ákæru yfir höfði sér vegna sinnar aðkomu að óeirðunum í þinghúsi Bandaríkjanna í vikunni. Einn æðsti saksóknari dómsmálaráðuneytisins vildi ekki útiloka í gær að Trump yrði ákærður.
Samkvæmt New York Times gengu ráðgjafar Trumps hart á hann á miðvikudaginn og hvöttu hann til að fordæma óeirðirnar, sem hann neitaði að gera. Pat A. Cipollone, lögmaður Hvíta hússins, benti Trump á að hann gæti lent í vandræðum vegna óeirðanna.
Haft er eftir starfsmönnum Hvíta hússins að Trump hafi virst skemmta sér vel yfir sjónvarpsfréttum af óeirðunum.
Í skýrslu Robert Mueller, sérstaks saksóknarar dómsmálaráðuneytisins, vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu tíundaði hann tíu tilvik þar sem Trump gæti hafa hindrað framgang réttvísinnar. Þá nefndu saksóknarar í New York Trump í ákæru vegna brota á kosningalögum.
Mögulega gæti Trump verið ákærður eftir að hann lætur af embætti. Náðunarvald forsetaembættisins nær þó eingöngu yfir alríkisglæpi og ekki glæpi í tilteknum ríkjum.
Samkvæmt New York Times hefur Trump sagt ráðgjöfum sínum að honum finnist gaman að beita þessu valdi og hefur hann í nokkrar vikur beðið þá og aðra bandamenn sína um tillögur að fólki til að náða. Þá er hann einnig sagður hafa boðið fólki fyrirbyggjandi náðun vegna mögulegra glæpa sem þeir hafi framið.
Trump hefur ekki beitt náðunarvaldi forsetaembættisins í samræmi við forvera sína. Heilt yfir hefur hann náðað eða fellt niður dóma 94 manna. Þar af tengjast flestir honum persónulega eða hafa hjálpað honum pólitískt séð.