Í færslu sinni segist Trump svara öllum þeim sem verið hafa að spyrja.
To all of those who have asked, I will not be going to the Inauguration on January 20th.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 8, 2021
Búist er við því að Mike Pence varaforseti mæti þó á athöfnina. Hefð er fyrir því að fyrrverandi forsetar mæti á innsetningarathafnir sem þessa og hefur George W. Bush, forseti frá 2001 til 2009, til dæmis staðfest komu sína.
Jimmy Carter, sem var forseti frá 1977 til 1981, mætir hins vegar ekki. Hann er 96 ára gamall og hefur glímt við erfið veikindi. Carter er langlífasti forseti Bandaríkjasögunnar og hefur ekki misst af innsetningarathöfn frá því hann tók sjálfur við embætti.
Hingað til hafa einungis fjórir forsetar neitað að mæta á innsetningarathöfn eftirmanns síns: John Adams árið 1801, John Quincy Adams árið 1829, Andrew Johnson árið 1869 og nú Donald Trump, 152 árum seinna.
Trump hefur sætt mikilli gagnrýni vegna innrásar stuðningsmanna hans í bandaríska þinghúsið á miðvikudag. Í aðdragandanum hvatti hann fólk til mótmæla við bandaríska þinghúsið en sagðist svo í yfirlýsingu í gær fordæma þá sem hefðu brotið lög umrætt sinn.
Fjórir mótmælendur og einn lögreglumaður létu lífið í átökum.