Á meðal þess sem fram er komið eru upplýsingar um mann sem lýsti því yfir að hann vildi skjóta Nancy Pelosi, leiðtoga Demókrataflokksins og forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Hann hafi komið til Washington degi áður en stuðningsmannafundurinn fór fram og sagði vinum og vandamönnum að hann vildi „skjóta eða keyra yfir“ Pelosi.
Í einum smáskilaboðum sem hann er sagður hafa sent lýsti hann því yfir að hann væri að íhuga að „setja kúlu í hausinn á Pelosi í beinni útsendingu“ og hann hefði tekið með sér „heilan haug“ af skotvopnum.

Maðurinn hefur verið ákærður og nafngreindur. Hann heitir Cleveland Grover Meredith Jr. og hefur hann verið ákærður fyrir hótanir og vörslu óskráðra skotvopna. Hann verður leiddur fyrir dómara í næstu viku og er í haldi lögreglu þangað til.
Annar maður, Lonnie Leroy Coffman, kom til Washington frá Alabama á pallbíl þar sem finna mátti ellefu heimatilbúnar sprengjur, árásarriffil og skammbyssu. Hann er sagður hafa lagt bílnum tveimur götum frá þinghúsinu á miðvikudag án athugasemda frá lögreglu samkvæmt saksóknurum. Sprengjusveit kom auga á bílinn eftir að óeirðir brutust út.
Coffman sagði lögreglu að hann hefði fyllt krukkur af bræddu frauðplasti og bensíni og telja rannsakendur blönduna geta leitt til mikillar sprengingar.
Sá hefur einnig verið ákærður, en alls hafa þrettán verið ákærðir fyrir brot á alríkislögum samkvæmt dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Í gær var greint frá því að maðurinn sem kom sér fyrir í stól Pelosi hefði verið handtekinn og ákærður.