„Stjórn PGA of America samþykkti í kvöld að nýta rétt sinn til þess að rifta samningi um að halda PGA meistaramótið 2022 á Trump Bedminster vellinum,“ sagði Jim Richerson, forseti PGA of America, í gærkvöld.
PGA meistaramótið er eitt af fjórum risamótum hvers árs í golfi karla. Tilkynnt var árið 2012, áður en Trump bauð sig fram til Bandaríkjaforseta, að PGA meistaramótið 2022 færi fram á Bedminster-velli hans í New Jersey. Það var í fyrsta sinn sem völlur í hans eigu var valinn fyrir risamót karla, en PGA meistaramót kvenna fór fram á Bedminster árið 2017.
PGA-meistaramótið á næsta ári fer fram í maí. Ekki hefur verið tilkynnt hvar það verður haldið en þrír fyrrverandi mótsstaðir hafa verið nefndir; Bethpage Black, Southern Hills og Valhalla.
Ekki forsvaranlegt eftir hina sorglegu atburði
„Við erum lent í pólitískri stöðu sem við sköpuðum okkur ekki sjálf,“ sagði Seth Waugh, framkvæmdastjóri PGA of America, og bætti við:
„Við vinnum fyrir okkar meðlimi, fyrir íþróttina, okkar markmið og okkar samtök. Hvernig stöndum við sem best vörð um þau? Okkur þótti ekki forsvaranlegt að halda mótið á Bedminster eftir hina sorglegu atburði síðasta miðvikudag. Tjónið hefði getað orðið óbætanlegt. Eina alvöru leiðin var að hætta við.“
Trump-samsteypan hefur lýst yfir vonbrigðum með ákvörðunina. „Þetta er brot á bindandi samningi og þeir hafa engan rétt á að slíta samkomulaginu. Við höfum fjárfest fyrir milljónir Bandaríkjadala í PGA meistaramótinu 2022 á Bedminster. Við höldum áfram að auka hróður golfíþróttarinnar á öllum stigum og ætlum áfram að reka bestu golfvellina um allan heim,“ sagði talsmaður Trump-samsteypunnar við ABC fréttastofuna.