Að sögn hennar er mikið verk nú óunnið til að skapa traust íbúa til rýminga á svæðinu. Sérstaklega þurfi að skoða hvar ábyrgð á ákvörðunum um rýmingar liggi.
„Núverandi staða þessara mála er algerlega óviðunandi enda ljóst að þetta flækjustig hefði getað kostað mörg mannslíf á Seyðisfirði,“ segir í bókun heimastjórnarinnar.
Mikið tjón varð vegna aurskriðanna sem féllu á Seyðisfirði í desember en engin slys urðu á fólki. Hreinsunarstarf stendur enn yfir og er hættustig almannavarna áfram í gildi á svæðinu.
Vilja allsherjarendurskoðun
Heimastjórn Seyðisfjarðar kallar eftir endurskoðun á öllu vinnulagi við ákvarðanatöku við óvissu- og hamfaraaðstæður eins voru í aðdraganda aurskriðanna þann 18. desember. Samkvæmt núgildandi reglum liggur ákvörðun um rýmingar hjá Veðurstofu varðandi snjóflóðahættu en hjá Almannavarnarnefnd varðandi aurskriðuhættu.
„Þetta skapar hættulegt flækjustig sem sýndi sig ljóslega í þessum atburðum á Seyðisfirði. Eðlilegt verður að telja að í báðum tilvikum eigi þessi ákvörðun að liggja hjá Veðurstofu með sterkri tengingu inn á staðina bæði með aðkomu eftirlitsmanna Veðurstofunnar á hverjum stað auk staðarnefndar sem virkjast um leið og Veðurstofa telur tilefni til,“ segir í fundargerð en RÚV greindi fyrst frá málinu.
Kallar heimastjórnin eftir viðbrögðum frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sveitastjórn Múlaþings, Ofanflóðasjóði, Veðurstofunni og sveitarstjórnarráðuneytinu.
Tjón á bilinu einn til tveir milljarðar króna
Ekki hefur orðið vart við skriðuföll úr hlíðinni ofan Seyðisfjarðar frá því fyrir jól. Vöktun hlíðanna hefur verið efld umtalsvert frá því sem var áður en skriðurnar féllu. Fylgst er með hreyfingu jarðlaga sem og vatnshæð í borholum í hlíðinni. Ekki hafa mælst merkjanlegar hreyfingar né óeðlileg vatnshæð. Unnið er að því að auka tíðni mælinga enn frekar með sjálfvirkum búnaði.
Stjórnvöld hyggjast greiða tvo þriðju af kostnaði við hreinsunarstarf á Seyðisfirði vegna hamfaranna en talið er að kostnaðurinn gæti numið allt að 600 milljónum. Áætlað er að heildartjón á Seyðisfirði hlaupi á einum til tveimur milljörðum króna hið minnsta.