Í tilkynningu frá YouTube segir að ákvörðunin sé tekin eftir að efni sem áður hafði verið hlaðið upp á notendasíðu forsetans braut gegn notendaskilmálum. Samkvæmt YouTube laut brotið að því að hvatt hafði verið til ofbeldis í efninu sem hlaðið hafði verið upp.
Bannið gildir til að byrja með í sjö daga. Það gæti þó verið framlengt og þá hefur efni verið fjarlægt af síðu forsetans. Auk þess hefur verið lokað fyrir athugasemdir undir myndbönum á síðunni.
Áður hafa samfélagsmiðlarnir Facebook og Twitter lokað fyrir aðganga Trumps. Það var gert í kjölfar óeirðanna við bandaríska þinghúsið í síðustu viku þar sem að minnsta kosti fimm manns létust, þar á meðal einn lögreglumaður.
Var reikningum forsetans lokað vegna hættu á frekari hvatningu til ofbeldis. Var til að mynda haft eftir forsvarsmönnum Twitter í tilkynningu að ekki mætti nýta miðilinn til að hvetja til ódæðisverka eða ofbeldis. Slíkt færi gegn stefnu miðilsins.