Sjúklingur sem hafði verið lagður inn á deildina nýlega var greindur smitaður af veirunni í gærkvöldi. Í kjölfarið var deildinni lokað fyrir innlögnum og allir starfsmenn og sjúklingar sendir í skimun fyrir veirunni í morgun.
Fram kemur í tilkynningu frá Landspítalanum að ekki liggi fyrir hvernig sjúklingurinn hafi smitast en ljóst þyki að viðkomandi hafi verið smitaður þegar hann var lagður inn á deildina. Sjúklingurinn var í gærkvöldi fluttur yfir á smitsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi og er hann nú í einangrun.
Sjúklingurinn sem um ræðir naut áður þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Hættustigi var lýst yfir á sjúkrahúsinu á Ísafirði en hefur því nú verið aflétt.