Hluti Seyðisfjarðar var rýmdur í varúðarskyni á föstudag vegna mikillar úrkomuspár og tilheyrandi hættu á skriðuföllum.
Í samráði við Veðurstofu Íslands og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lögreglan ákveðið að aflétta rýmingunni og geta íbúar á þeim svæðum sem rýmd voru á föstudag því snúið aftur heim.
Um eftirtalin hús er að ræða:
Öll hús við Botnahlíð.
Múlavegur 37.
Baugsvegur 5.
Austurvegur 36, 38b, 40b, 42, 44, 44b, 46, 46b, 48, 50, 52, 54 og 56.
„Engin hreyfing hefur mælst á hlíðinni ofan Seyðisfjarðar þrátt fyrir rigningu frá föstudagskvöldi fram til seinnipart laugardags í gær og ekki hefur orðið vart við óstöðugleika. Vatnshæð í borholum hefur ekki hækkað umtalsvert. Því er talið óhætt að aflétta rýmingu.
Rýmingu er einnig aflétt af öllum húsum við Fossgötu. Hús þar hafa verið rýmd frá því í vikunni fyrir jól þegar stóra skriðan féll. Farvegur Búðarár hefur síðan verið dýpkaður og lagfærður. Í ljósi þess sem og þess stöðugleika sem hefur sýnt sig í hlíðum þykja ekki efni til að viðhalda rýmingu á Fossgötu,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.