Samkvæmt Guardian bar sum dauðsfallanna svo brátt að, að starfsmönnum gafst ekki ráðrúm til að veita sjúklingum líknarhjálp eða gera aðstandendum kleift að kveðja.
Hópsmitið á Old Hall hjúkrunarheimilinu í Halton Holegate kom fyrst upp 16. nóvember og stóð yfir í um sex vikur.
„Allir íbúarnir 27 greindust á sama tíma og tuttugu af 28 starfsmönnum. Þetta var hræðilegt; við misstum átján íbúa,“ segir framkvæmdastjórinn Diane Vale. Tveir starfsmannanna veiktust svo illa að þeir voru lagðir inn á sjúkrahús og annar er enn í veikindaleyfi.
Ráðstafanir á hjúkrunarheimilinu með tillit til Covid-19 voru metnar góðar í lok nóvember en þá hafði hluti starfsmanna flutt inn til að draga úr smithættu.
31 prósent allra dauðsfalla vegna Covid-19
Dauðsföllum á hjúkrunarheimilum í Englandi fjölgaði um nærri þriðjung á þremur vikum fyrir 10. janúar en Guardian sagði frá því fyrr í mánuðinum að þrettán af 27 íbúum Edendale Lodge hjúkrunarheimilisins í Austur-Sussex hefðu látist frá 13. desember.
23.916 íbúar hjúkrunarheimila á Bretlandseyjum höfðu látist sökum Covid-19 hinn 1. janúar síðastliðinn. Um er að ræða bæði staðfestar greiningar og tilvik þar sem grunur leikur á um smit.
Um er að ræða 31 prósent allra dauðsfalla vegna Covid-19.
Að sögn Vale var ekki hægt að greina það á einkennum að faraldur væri að brjótast út á heimilinu; enginn hiti eða viðvarandi hósti. Hún segir harmleikinn hafa komið afar illa við starfsfólkið, bæði tilfinningalega og andlega.
Í mörgum tilvikum þróuðust veikindin mjög hratt.
„Við töluðum við lækna dags daglega en í mörgum tilvikum voru engin merki um að andlát væri yfirvofandi. Einn kona át fulla skál af graut í morgunmat, át hádegismat og dó svo daginn eftir. Sum dauðsfallanna bar enn hraðar að.“