„Ég vil byrja á sóttvarnaryfirvöldum sem hafa staðið sig með miklum fádæmum vel. Það hefur allt gengið vel, allt gengið eftir,“ sagði Páll.
Velgengnin sé augljós óháð mælikvarða. „Tíðni nýsmita, hörkustig aðgerða, mælt í dauðsföllum. Það er gert á ýmsa mælikvarða víðs vegar í Evrópu og það er alveg sama hvaða mælikvarði er notaður. Við erum að skora hæst eða með þeim hæstu á þeim öllum.“
Helst mætti kvarta yfir pöntun og afgreiðslu á bóluefnum í samstarfi við Evrópusambandið.
„En ég get upplýst það hér að ég hef rökstuddan grun um að það standi til bóta núna alveg á næstunni.“
Einnig mætti hrósa ráðstöfunum í efnahagsmálum. „Flestar, ef ekki allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa náð eða eru að ná tilætluðum árangri með örfáum undantekningum.“
Rík ástæða til að gleðjast
Þá sagði Páll að hægt væri að gleðjast yfir fleiru í efnahagsmálum.
„Ríkisstjórnin, og við í þinginu, bárum gæfu til þess fyrir nokkrum vikum að auka á það fé sem ætlað er til loðnurannsókna um smávægilega upphæð og nú stefnir í að við getum fengið hér loðnuvertíð upp á tuttugu til þrjátíu milljarða króna eftir tvö loðnulaus ár.“
Í lok hvatningaræðunnar sagði Páll ríka ástæðu til að gleðjast. „Og fagna ýmsum jákvæðum merkjum sem við horfum á þessa dagana.“