Greint var frá því í gær að bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson, sem þekktastir eru sem forsvarsmenn trúfélagsins Zuism, hefðu opnað pítsustaðinn Slæs í Garðabæ á laugardag.
Eftir að fregnir bárust af opnuninni hefur verið bent á talsverð líkindi með merki Slæs og merki annars pítsustaðar, Firecraft Artisan Pizza í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum. Merkin eru raunar alveg eins; stílhrein og sýna pítsusneið umlukta logum. Samanburð má sjá á myndinni hér fyrir ofan.
Leiðinlegt ef vörumerkið er of líkt öðru
Ágúst Arnar segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að þau hjá Slæs viti af líkindunum. Fleiri fyrirtæki séu með „sama eða svipað“ merki, sem fengið sé af Fiverr, markaðstorgi á netinu þar sem einyrkjar selja vinnu sína.
„Okkur hefur verið bent á þessi líkindi við annan pizzastað og reyndar fleiri. Logoið kom úr logobanka sem að lítil fyrirtæki nota oft til að spara kostnað í byrjun. Ég geri ráð fyrir að önnur fyrirtæki sem eru með sama eða svipað logo hafi gert það sama. Við völdum þetta logo því okkur fannst það passa vel við nafn og hlutverk staðarins,“ segir Ágúst Arnar.
Hann segir jafnframt að merkið sé fengið í gegnum hönnuð á síðunni og málið sé til skoðunar. Ef til vill þurfi að breyta merkinu í ljósi líkinda við aðra staði. Í því samhengi bendir hann á þriðja staðinn sem notar merkið en sá virðist staddur í Úrúgvæ.
„Við erum að skoða þetta sjálfir og vissum ekki að aðrir væru að nota svipað logo. Við erum því að skoða hvort að við þurfum að breyta því. Við erum að byggja upp okkar eigið vörumerki og finnst því leiðinlegt ef það eru líkindi milli annars merkis.“
Uppfært klukkan 17:03:
Samkvæmt frekari upplýsingum frá Slæs er merkið upprunnið úr myndabankanum Shuttersock, líkt og sjá má hér. Staðurinn hafi tilskilið leyfi til að nota merkið.