Síðasti dagur Donalds Trump í embætti er senn á enda en Biden verður forseti númer 46. á morgun. Kamala Harris verður fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta og fyrsti varaforsetinn af asískum uppruna.
Trump ætlar ekki að mæta á athöfnina og verður fyrsti forsetinn í hálfa aðra öld til að skrópa á innsetningarathöfn eftirmanns síns. Hann mun heldur ekki taka á móti þeim Joe og Jill Biden í Hvíta húsinu eins og hefð er ferinn.
Almenningur hefur verið beðinn um að mæta heldur ekki á athöfnina, bæði vegna kórónuveirufaraldursins og árásar stuðningsmanna Trumps á þinghúsið 6. janúar. Öryggisgæsla var hert mjög í borginni eftir árásina.
Fleiri hermenn en í Írak og Afganistan
Alls eru 25.000 þjóðvarðliðar við störf í borginni. Þrefalt fleiri en þeir átta þúsund sem voru þegar Trump tók við embætti fyrir fjórum árum og fimmfalt fleiri en hermennirnir 5.000 sem eru nú í Írak og Afganistan.
Alríkislögreglan gerir nú bakgrunnsrannsóknir á þjóðvarðliðunum en samkvæmt varnarmálaráðuneytinu bendir ekkert til mögulegrar innanbúðarárásar.

Borgarbúar halda sig innandyra
En hvernig er andrúmsloftið í Washington í ljósi þessa herta öryggis? Bryndís Bjarnadóttir meistaranemi er búsett í borginni. „Það er ekki hægt að fara út nema að sjá hermenn í fullum klæðum og með byssurnar sínar. Það er ekki það sem fólk vill dags daglega,“ segir Bryndís.
Hún segir borgina minna á herstöð.
„Þau eru búin að setja upp stöðvar úti um allt sem þú getur farið í gegnum og þá þarftu að sýna skilríki ef þú vilt komast inn á ákveðin svæði og þú þarft að vera með „resident card“ til að komast á ákveðin svæði. Þannig flestir sem ég þekki halda sig innan dyra eins og er.“
Þá segir Bryndís borgarbúa, sem langflestir kusu Biden, ekki eiga eftir að sakna Trumps. „Fólk hefur náttúrulega rosalega sterkar skoðanir á Trump og fyrst meirihlutinn eru Demókratar er fólk mjög spennt yfir því að Trump sé að fara.“