Pompidou-safnið er einn af vinsælli áfangastöðum ferðamanna í París, en þar er að finna eitt stærsta safn nútímalistar í Evrópu. Safninu verður lokað frá 2023 og til ársins 2027 samkvæmt áætlun.
Franski menningarmálaráðherrann Roselyne Bachelot segir safnið hafa sýnt skýr merki þess að nauðsynlegt væri að ráðast í endurbætur. Tveir möguleikar hafi verið í stöðunni – annars vegar að halda safninu opnu á meðan ráðist væri í endurbætur, og hins vegar að loka safninu á meðan þær standi yfir.
„Ég valdi seinni kostinn þar sem það tekur skemmri tíma og er sömuleiðis aðeins ódýrara,“ er haft eftir Bachelot í frétt Guardian.
Byggingin sjálf var hönnuð af arkitektunum Renzo Piano og Richard Rogers og opnaði árið 1977.
Alls sóttu 3,2 milljónir manna safnið heim árið 2019. Því var hins vegar lokað stóran hluta síðasta árs vegna faraldurs kórónuveirunnar.