Rétt fyrir jól samþykkti Alþingi frumvarp landbúnaðarráðherra þar sem horfið var frá nýlegum breytingum á gjaldi á innfluttar landbúnaðarvörur innan tollakvóta frá Evrópusambandinu. Nú er kvótunum úthlutað til hæstbjóðenda en ný aðferð á síðasta ári studdist við jafnvægisverð sem lækkaði álögur töluvert.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir niðurstöður fyrsta útboðsins á þessu ári hafa verið kynntar í dag.
„Þær sýna náttúrlega að það gengur eftir sem við höfðum áhyggjur af. Því miður hækkar útboðsgjaldið í mörgum tilvikum gríðarlega. Til dæmis um 65 prósent á nautakjötskvóta og115 prósent á lífrænum kjúklingi. Tuttugu og níu faldast á innfluttum hráskinkum og öðru slíku.“ Eða um tvöþúsund áttahundruð og fjörutíu prósent.

Ólafur segir þetta leiða til hækkunar á verði innfluttrar landbúnaðarvöru.
„Í skjóli þess verður innlend vara líka dýrari. En ég er hræddur um að það hafi allan tímann verið meiningin. Það hafi verið ætlun landbúnaðarráðherrans að hækka hérna matarverð meðvitað,“ segir Ólafur.
Landbúnaðarráðherra sagði breytt fyrirkomulag í fyrra hins vegar ekki hafa tryggt lækkun vöruverðs þar sem lækkanir á verði vörunnar í Evrópu hafi ekki skilað sér til neytenda.
„Við erum bara alveg ósammála þeirri greiningu. Ég held að skýrsla Alþýðusambandsins til dæmis sem var unnin á matarverði og afleiðingum af tollasamningi við Evrópusambandið og þessari nýju útboðsaðferð hafi einmitt sýnt að þetta skilaði sér,“ segir Ólafur Stephensen.